Smástundarsafnið safnar ekki efnislegum munum, heldur sköpum við umræðuvettvang til að skyggnast á bak við persónulega muni. Safnið er í raun eingöngu til í smá stund í senn, en sögum gestanna söfnum við saman hér á síðunni okkar.
HVAÐ ER ÞETTA?
Á Íslenska Safnadeginum, 7.júlí 2013, buðum við gestum Hönnunarsafns Íslands að koma með hluti þar sem hönnuðinum hafði ekki tekist að koma skýrt til skila hvað viðkomandi hlutur átti að geta gert. Saman leystum við fjöldan allan af hönnunar-ráðgátum.
SKEMMTUN
Við skemmtum okkur konunglega í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 16.mars 2013. Þemað, skemmtun, kallaði fram ótal skemmtilegar minningar sem tengdust leðjubolta-búningum, varalit og skopparkalli.
Hvað er meira við hæfi á safnanótt en að forvitnast um þau persónulegu söfn sem eflaust leynast á hverju heimili. Við spurðum safnanætur gesti á Landnámssetrinu 8.febrúar 2013 hverju þeir söfnuðu.
Við vorum í hátíðarskapi á aðventunni, enda var okkur boðið í heimsókn í Norska húsið á Stykkishólmi 13.desember 2012. Við vildum vita hvað kæmi ykkur í hátíðarskap.
Fyrsta Smástundarsafnið var haldið á Háskólatorgi rétt fyrir sumarfrí Háskóla Íslands, 18.maí 2012. Nemar voru flestir búnir í prófum og höfðu skilað af sér verkefnum og gátu farið að hlakka til sumarfrísins. Við spurðum hvaða hluti þeir tengdu við frí.
Samhliða Smástundarsafninu sýnu nemendur í námskeiði í sjónrænni mannfræði afrakstur lokaverkefnis síns. Á námskeiðinu voru nemendur hvattir til að kanna ólíkar leiðir til að miðla mannfræðirannsóknum sem var kærkomið frí frá hinum hefðbundna akademíska texta.